Sumarsýning Grósku 2021

Salonsýning með sprengikrafti og veislugjörningur með fjöldatakmörkunum

Sumarið er framundan og Gróska, félag myndlistarmanna í Garðabæ, geysist fram á sjónarsviðið aftur. Sumarsýning Grósku verður opnuð í Gróskusalnum við Garðatorg 1 á sumardaginn fyrsta. Hefð hefur verið fyrir þessari sýningu í Garðabæ en ekkert hefðbundið er þó við hana heldur einkennist hún af frumleika í ólíkum verkum og uppsetningu. Þetta er salonsýning með 37 sýnendum og um 130 listaverkum: málverkum, vatnslitamyndum, glerlist, skúlptúrum úr ýmsum efnum o.fl. Eins og tíðkast á slíkum sýningum eru myndir hengdar upp þétt saman frá gólfi og upp undir loft og þetta skapar sprengikraft. Sýningarstjórn þessarar margbrotnu sýningar er í öruggum höndum Birgis Rafns Friðrikssonar myndlistarmanns en hann hefur mikla reynslu á þessu sviði. Auk salonsýningarinnar verður við þetta tilefni opinberað stórt sameiginlegt veisluverk allra sýnenda þar sem hver hefur lagt til eina litla mynd. Þemað er „veisla“ og verkið felur í sér gjörning þar sem Gróska býður öllum til veislu. Sköpun verksins hófst upp úr 10 ára afmæli Grósku 1. mars 2020 og átti upphaflega að sýna það í fyrra. Höfundur að uppsetningu veisluverksins er Laufey Jensdóttir myndlistarmaður sem einnig er hugmyndasmiðurinn að Grósku. Gróska lætur mótlætið ekki stöðva sig og býður nú til veislu með fjöldatakmörkunum, þannig að veislugestum verður hleypt inn í litlum hópum meðan sýning stendur yfir dagana 22.-25. apríl og helgina 1.-2. maí kl. 14-18. Vel verður gætt að sóttvörnum. Í tengslum við sýninguna er einnig í vinnslu myndband með spjalli við listamennina og verður það birt á netinu síðar. Hin hæfileikaríka Rebekka Jenný Reynisdóttir myndlistarmaður og skáld stjórnar þessum hluta verkefnisins.

Viðburður á Facebook

Gróska er stórt og virkt myndlistarfélag sem stendur fyrir allnokkrum sýningum og viðburðum yfir árið. Tilgangurinn er að styrkja samstarf myndlistarmanna í Garðabæ, efla og gera myndlistina sýnilegri og auka myndlistaráhuga. Starfsemin hefur borið árangur og Gróska hefur fest sig í sessi í menningarlífi Garðabæjar. Í Grósku er mikilvægur vettvangur fyrir skapandi samneyti myndlistarmanna sem hefur orðið mörgum hvatning til að koma fram með duldar listaperlur. Til að efla hópinn innbyrðis stendur Gróska fyrir skemmtunum og faglegum námskeiðum og það hefur meðal annars skilað sér í sífellt vandaðri sýningum. Félagið er opið öllum 18 ára og eldri sem búa eða vinna í Garðabæ og fást við myndlist. Gróskuliðar eru á öllum aldri og áhugasamt fólk er hvatt til að sækja um í gegnum fésbókarsíðu Grósku eða með því að senda póst á groskamyndlist@gmail.com