Skrúður - sýning í SÍM salnum

Lily Erla Adamsdóttir hefur opnað sýninguna SKRÚÐUR í SÍM salnum.

Í óhlutbundnum verkum skapar Lilý samtal milli lita og áferðar. Hún dregur fram heillandi heim þar sem hæðir og lægðir takast á og mynda kraftmikinn hrynjanda á yfirborðinu. Hún skoðar yfirborð hversdagsins og sækir innblástur jafnt í marmarakökur sem og jökulhlaup. Verkin á sýningunni eru loðin málverk.

Lilý lauk BA prófi í myndlist við Listaháskóla Íslands árið 2011. Diplóma í Textíl við Myndlistaskólann í Reykjavík árið 2014 og MA í listrænum textíl við The Swedish School of Textiles, í Borås í Svíþjóð 2017.

Í listsköpun sinni hefur hún fengist við textíl, málverk, skúlptúr, ljóðlist og gjörninga. Hún hefur sýnt og kennt textíl og myndlist bæði hér heima og erlendis. Lilý er deildarstjóri textíldeildar Myndlistaskólans í Reykjavík og situr sem formaður í stjórn Textílfélags Íslands.

Sýningin stendur í tvær vikur og verður opin á skrifstofu tíma SÍM milli 10-16 alla virka daga.

Facebook viðburður