Samkeppni um útilistaverk í Vogabyggð

Reykjavíkurborg hefur ákveðið að efna til samkeppni meðal myndlistarmanna og er tilgangur samkeppninnar að fá fram tillögur að útilistaverkum til útfærslu í almenningsrými í Vogabyggð. Í deiliskipulagi Vogabyggðar kemur fram að listaverk skuli vera hluti af heildarhönnun almenningsrýma í hverfinu. Það er í samræmi  við stefnu borgaryfirvalda og hluti af samningsmarkmiðum við núverandi lóðahafa á svæðinu.

Samkeppnin er haldin samkvæmt samkeppnisreglum Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM) – lokuð samkeppni með opnu forvali. Val á listamönnum til þátttöku í samkeppninni er með þeim hætti að áhugasömum er boðið að senda inn nafn sitt ásamt greinargóðum upplýsingum um listferil og myndum af fyrri verkum. Heimilt er að senda inn stuttan texta þar sem fjallað er um forsendur, reynslu, hæfni og áhugasvið umsækjanda. Sérstök forvalsnefnd velur úr innsendum umsóknum allt að átta listamenn til að taka þátt í lokaða hluta samkeppninnar.

Við endanlegt val á listaverki/listaverkum verður haft að leiðarljósi að styrkja þau markmið deiliskipulags Vogabyggðar að myndlist verði veigamikill og afgerandi hluti umhverfis og mannlífs í hverfinu. Sérstök áhersla er lögð á listaverk á svæðum sem eru skilgreind sem almenn leik- og dvalarsvæði, þ.e. þemavellir og andrými (merkt þemavellir Þ1, Þ2, Þ3 og andrými A1, A2, A3, A4, A5 á korti Vogabyggð - Skýringamynd). Haft skal að leiðarljósi að skapa örvandi umhverfi fyrir alla aldurs- og þjóðfélagshópa.

Þeir listamenn sem veljast til þátttöku í lokaða hluta samkeppninnar fá greiddar kr. 600.000 .- hver fyrir tillögugerðina. Listamennirnir munu fá kynningu á skipulagsmarkmiðum Vogabyggðar og þeim hugmyndum sem lagðar eru til grundvallar í hönnun hverfisins. Þeir munu síðan hafa aðgang að upplýsingum og ráðgjöf frá hönnunarteymi arkitekta- og landslagsarkitekta sem útfæra almenningsrými og götur Vogabyggðar. Tilkynnt verður opinberlega hvaða listamenn eru valdir til þátttöku í lokaða hluta samkeppninnar.

Listasafn Reykjavíkur hefur umsjón með listaverkum í Vogabyggð og stendur að baki samkeppninni auk þess að vera tengiliður við hönnuði, svið og deildir Reykjavíkurborgar en jafnframt er trúnaðarmaður tilnefndur af SÍM til upplýsingar og ráðgjafar fyrir listamenn sem taka þátt í samkeppninni. 

 

Skilafrestur umsókna til þátttöku í forvali er 2. maí og velur forvalsnefnd allt að átta listamenn til að senda inn útfærðar samkeppnistillögur. Nánari upplýsingar um samkeppnina er að finna á vefsíðunni reykjavik.is/listaverk-vogabyggd

Stefnt er að því að úrslit verði kunn í lok ársins og að verkið, eitt eða fleiri, verði unnið í samhengi við framkvæmdahraða í Vogabyggð.

Listasafn Reykjavíkur hefur umsjón með listaverkum í Vogabyggð og stendur að baki samkeppninni.