Sýningar í Safnasafninu

Safnasafnið verður opið frá kl. 10.00 til 17.00 alla daga til 9. september.

Sýningar safnsins 2018 eru fjölbreyttar að venju.

Til að fagna evrópsku menningararfsári ákvað Safnasafnið að setja upp sýningu á 360 fuglum úr safneign sinni, sem geymir um 600 fugla alls. Á sýningunni eru farfuglar, staðfuglar, skrautfuglar og ævintýrafuglar úr ólíkum hugmyndasmiðjum, en allir eiga þeir heima í Safnasafninu, margir hafa dvalið þar frá stofnun 1995 en aðrir eru nýflognir í hús.

Í anddyri sýna börn úr Valsárskóla og Álfaborg verk tengd 100 ára afmæli fullveldis Íslands og Bjarni Þór Þorvaldsson teikningar.

Í vestursal er sýning á máluðum húsalíkönum úr pappa eftir Gunnar Sigfús Kárason (1931-1996) frá Sólheimum. Sýningin er í samstarfi við listahátíðina List án landamæra. Einnig eru á sýningunni tvö æskuverk eftir Erró sem sýna ímyndaðar byggingar og líkön sem skólabörn á Grenivík gerðu af húsum í þorpinu sínu.

Í austursal eru teiknaðar og málaðar myndir eftir Ingvar Ellert Óskarsson (1944-1992) og útskorin verk eftir Matthías Má Einarsson. Verk beggja bera með heillandi andblæ einlægni og sjálfsprottinnar fegurðar sem auðvelt er að hrífast af og njóta. Sýningin er í samstarfi við listahátíðina List án landamæra.

Í norðursölum efri hæðar sýna Halla Birgisdóttir, Kristín Ómarsdóttir og Þórunn Elísabet Sveinsdóttir. Í langasal sýnir Ívar Valgarðsson ljósmyndir.
Í bókastofunni sýnir Vilhjálmur Ingi Vilhjálmsson ný verk úr plastperlum, þar er einnig að finna bókverkið BUGS og valin verk úr safneign eftir Arnar Herbertsson, Olofu Nordal og Stefán Fjólan.

Í versluninni sýnir Bryndís Símonardóttirverk tengd vorkomu og farfuglum og í innra rými verslunarinnar, svokallaðri Svalbarðsstofu, er sýningin Bróderað landslag. Þar eru sýnd sérkennileg myndverk frá árunum 1916-1959, þar sem himinn og vatn er málað en landslag saumað út með listsaumi.

Brúðusafnið sýnir að venju þjóðbúningabrúður frá fjöldamörgum löndum og auk þess brúðugjöf úr eigu Elínar Jónsdóttur (1918-2013).

Á útisvæði er samsýningin Handan Norðanvindsins með verkum þeirrra Barbara RidlandKristínar Reynisdóttur og Málfríður/ar Aðalsteinsdóttur, en einnig má sjá úti fyrir verk eftir Ragnar Bjarnason, Hjalta Skagfjörð Jósefsson og Yngva Örn Guðmundsson.

Sjá nánar á vef Safnasafnsins