Erna Elínbjörg hlaut fyrstu verðlaun á European Ceramic Context 2018

Erna Elínbjörg vinnur að uppsetningu verksins
Erna Elínbjörg vinnur að uppsetningu verksins "Still Waters" sem hlaut fyrstu verðlaun

EUROPEAN CERAMIC CONTEXT
Tvær sýningar á Bornholm 15. sept til 21. nóv. 2018

Annað hvert ár er haldinn stór viðburður á eyjunni Bornholm í Danmörku. Annars vegar er viðburðurinn helgaður evrópskri samtíma glerlist en hins vegar leirlist. European Ceramic Context var haldið í fyrsta sinn 2006 en European Glass Context fyrst árið 2008.
Nú í ár er viðburðurinn helgaður evrópskri samtíma leirlist. Um er að ræða sýningar, vinnustofur, málþing og fyrirlestra. Þetta er kjörið tækifæri til að kynnast því besta sem er að gerast í leirlist í Evrópu um þessar mundir.
Haldnar eru tvær viðamiklar sýningar þar sem verk leirlistamanna frá 31 Evrópulandi eru sýnd.
Önnur sýningin ECC2018 – Open Call er á Grønbechs Gaard þar eru sýnd verk sem valin voru úr innsendum tillögum af alþjóðlegri sýningarnefnd. Íslensku listamennirnir sem valdir voru til þátttöku eru Hólmfríður Vídalín Arngríms og Kristín Sigfríður Garðarsdóttir.
Á hina sýninguna, ECC2018 – Curated sem fer fram í Bornholm Art Museum er valið inn af sex sýningarstjórum og eru það Erna Elínbjörg Skúladóttir og Hildigunnur Birgisdóttir sem voru valdar af nefndinni sem velur 1 til 2 listamenn frá 31 Evrópulandi.

Einnig eru veitt tvenn verðlaun til framúrskarandi listamanna og er gaman að segja frá því að Erna Elínbjörg Skúladóttir hlaut fyrstu verðlaun, 10.000 evrur, fyrir verk sitt „Still Waters“. Önnur verðlaun, 5.000 evrur hlaut Bretinn Sam Bakewell fyrir  verkið “Of Beauty Reminiscing”.

Á heimasíðunni www.europeanceramiccontext.com má svo finna allar upplýsingar um námskeið, vinnustofur, málþing og fyrirlestra á tengt European Ceramic Context 2018.