70 ára afmælishátíð Myndlistaskólans í Reykjavík

Laugardaginn 9. desember verður blásið til hátíðar í Myndlistaskólanum í Reykjavík. Húsið verður opið milli kl. 14 og 17 og boðið verður upp á tilsögn í teikningu og litameðferð með ýmsum formerkjum. Listamenn í kennaraliði skólans verða á staðnum tilbúnir að leiðbeina námsfúsum gestum, þeim að kostnaðarlausu.

Tilefnið er að þann dag verða liðin nákvæmlega 70 ár frá því að fyrsta kennslustundin fór fram í skólanum. Þá var einmitt boðið upp á kennslu í teikningu og litameðferð. Kennarinn var Waistel Cooper, skoskur málari sem í dag er mun þekktari fyrir keramik en málverk.

Eftirtaldar vinnustofur verða opnar á afmælishátíðinni:

Teikning eftir uppstillingu hjá Elsu Dórótheu Gísladóttur og Guðjóni Ketilssyni
Módelteikning hjá Halldóri Baldurssyni og Margréti H Blöndal
Litameðferð og vatnslitur hjá Sigtryggi Bjarna Baldurssyni og Þórunni Maríu Jónsdóttur
Teikning og litameðferð fyrir börn hjá Curver Thoroddsen og Guðrúnu Veru Hjartardóttur
Teikning og litameðferð fyrir eldri börn og unglinga hjá Brynhildi Þorgeirsdóttur og Guðrúnu Hrönn Ragnarsdóttur

Ekki er gert ráð fyrir að fólk skrái sig heldur geta gestir komið og farið þegar þeim hentar, svo lengi sem húsrúm leyfir. Allir eru hjartanlega velkomnir!

Hátíðin fer fram í húsnæði skólans, JL húsinu, Hringbraut 121. 

Í tilefni dagsins býður veitingahúsið Bazaar sem staðsett er á 1. hæð hússins upp á ýmiskonar hressingu á afmælistilboði.

Nánari upplýsingar hér