Bleikur og grænn

Þann 19. maí var opnuð í Listasafninu, Ketilhúsi sýning Anítu Hirlekar, "Bleikur og grænn".

Í hugmyndafræði Anítu sameinast handverk og tískuvitund með einkennandi hætti. Listrænar litasamsetningar og handbróderaður stíll eru áberandi þættir í hönnun hennar. 
 

Leiðsögn um sýningu Anítu Hirlekar, Bleikur og grænn, alla fimmtudaga í sumar kl. 15-15.30 og á ensku kl. 15.30-16. Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, fræðslufulltrúi, tekur á móti gestum og fræðir þá um sýninguna og einstaka verk. Innifalið í miðaverði.

Aníta Hirlekar  lauk BA námi í fatahönnun með áherslu á textílprent 2012 og MA gráðu í textílhönnun fyrir tískufatnað frá Central Saint Martins í London 2014. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði á Íslandi og erlendis, m.a. á tískuvikunni í London og París, Espoo Museum of Modern Art í Finnlandi og í Hönnunarsafni Íslands. Aníta var tilnefnd til Menningarverðlauna DV 2015 og hönnun hennar var í forvali fyrir Hönnunarverðlaun Íslands 2015. Hún hlaut Fashion Special Prize í International Talent Support hönnunarkeppninni á Ítalíu 2014.

Sýningarstjóri er Hlynur Hallsson.

Sýningin stendur til 16. september og er opin alla daga kl. 10-17. 

Vefsíða Anítu Hirlekar

Vefsíða Listasafnsins á Akureyri